Við forvituðumst um Grindarbotnsþjálfa svokallaðan í þættinum í dag. Þetta er byltingarkennd lausn til að styrkja grindarbotnsvöðva og minnka þannig hættu á þvagleka og legsigi en einnig til þess að auka unað af kynlífi. Notandinn spilar skemmtilega tölvuleiki í símanum sem hann stýrir með grindarbotnsvöðvunum en þessir leikir eru þróaðir í samvinnu með helstu sérfræðingum Frakka í grindarbotnslækningum. Svanlaug Jóhannsdóttir frá Osteostrong kom í þáttinn í dag og sagði okkur betur frá þessari nýju leið til að þjálfa grindarbotninn.
Ferðafélag Íslands hefur kynnt ferðaáætlun fyrir árið 2022 og er hún fjölbreytt og viðamikil að venju. Við fengum Sigrúnu Valbergsdóttur, varaforseta stjórnar og formann ferðanefndar félagsins til að segja okkur frá ferðaáætlun ársins sem var að byrja, þar var af nógu að taka enda er ferðaáætlunin vel á annað hundrað blaðsíður. Eins sagði Sigrún okkur frá árbók ferðafélagsins sem kemur nú út í 95.sinn, í þetta skipti fjallar hún um þjóðgarðinn Snæfellsjökul.
Kristín okkar Einarsdóttir ætti að vera hlustendum Mannlega þáttarins góðu kunn, en hún hefur sent okkur pistla og viðtöl lengi og mun gera það áfram. Í dag brugðum við þó aðeins út af vananum því við spjölluðum við Kristínu í beinni útsendingu. Hún sagði okkur frá ástandinu á Ströndum í kófinu og svo sagði hún okkur frá norskum og skoskum leiðum til að spá fyrir um næsta árið, kannski misáreiðanlegar. Sem sagt áramótahugleiðingar á þessum tímamótum og svo ræddi hún aðeins um Skaupið í ár og hvað mátti jafnvel lesa útúr því gríni sem þar var.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON