Guðmundur Kári Stefánsson, stjarneðlisfræðingur við Princeton háskóla, hlaut nýlega hin virtu Robert J. Trumpler verðlaun fyrir doktorsritgerð sína sem fjallaði um tækniþróun til að finna og greina betur fjarreikistjörnur frá jörðu. Þar hjálpaði hann til við að þróa svokallaða ljósdreifara sem gera fólki kleift að dreifa ljósinu frá stjörnunum á mjög nákvæman og stöðugan máta til að auðvelda mælingar og jafnvel til að uppgötva nýjar fjarreikistjörnur. Guðmundur kom í þáttinn í dag og sagði frá sínum rannsóknum og starfi og útskýrði þessa nýju tækni.
Í síðustu viku var haldin ráðstefna í tilefni af 70 ára afmæli Krabbameinsfélagsins og flutt voru mörg athyglisverð erindi. Fjallað var um krabbamein á Íslandi í víðu samhengi, með hliðsjón af markmiðum Krabbameinsfélagsins um að fækka þeim sem fá krabbamein, fjölga þeim sem lifa af og bæta lífsgæði sjúklinga og aðstandenda. Meðal þeirra sem fluttu erindi var Jóhanna Eyrún Torfadóttir, sérfræðingur hjá Rannsókna- og skráningasetri Krabbameinsfélagsins en hennar erindi hét ?Líkamleg einkenni og tilfinning fyrir að eitthvað sé að hefur mikið vægi í aðdraganda greiningar - niðurstöður úr stórri íslenskri rannsókn?. Jóhanna kom í þáttinn.
Margir muna eftir frækilegri kajaksiglingu Veigu Grétarsdóttur rangsælis í kringum Ísland á móti straumnum sumarið 2019. Nú hefur Veiga lagt í enn stærra verkefni, hún réri í sumar frá Ísafirði, austur á Seyðisfjörð og ætlar svo þaðan í enn lengri ferð á kajaknum. Veiga kom við á Ströndum í sumar og hjálpaði þar heimamönnum að hreinsa rusl úr svokallaðri Hörsvík en markmið ferðarinnar er að vekja athygli á rusli á ströndum landsins okkar og annarra landa. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, hitti Veigu og fékk hana til að segja frá þessu einstaka kajakævintýri.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON