Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var leikarinn og tónlistarmaðurinn Halldór Gylfason. Hann á 25 ára útskriftarafmæli frá Leiklistarskóla Íslands nú í vor og hefur allar götur síðan verið að vinna í leikhúsunum. Lengst af hefur hann verið á samningi í Borgarleikhúsinu hjá Leikfélagi Reykjavíkur og þar hefur hann leikið í hátt í 100 uppsetningum. Hann frumsýndi fyrir skemmstu í leikritinu Fyrrverandi eftir Val Frey Einarsson og nýlega var einnig frumsýnd kvikmyndin Allra síðasta veiðiferðin þar sem hann fer með eitt af aðalhlutverkunum. Við ræddum við Halldór um æskuna og uppvöxtinn í Vogahverfinu, tónlistina, íþróttirnar, Þróttara og fórum með honum í ferðalag í gegnum lífið til dagsins í dag.
Halldór sat svo áfram með okkur í matarspjalli dagsins með Sigurlaugu Margréti, besta vini bragðlaukanna. Þar sagði Halldór frá sínum uppáhaldsmat, hvernig maður ber sig að við hlaðborð, hvað var í matinn á hans æskuheimili og hvað hann eldar helst.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON