Áverkar á hálsi, til dæmis eftir bílslys, eru því miður algengir og valda þeim sem slasast gjarnan miklum verkjum og fjarveru frá vinnu, námi og frístundum. Nú er í gangi rannsókn við Háskóla Íslands sem snýst um að meta áhrif nýs meðferðarúrræðis í sjúkraþjálfun og notkun nýs tækis þar sem markhópurinn er einmitt fólk sem hefur hlotið áverka í hálsi eftir árekstur í umferðinni. Vonir standa til að, auk þess að bæta líðan þeirra sem glíma við hálsáverka, að þessi nýja meðferð muni að auki draga úr kostnaði vegna áverkanna. Harpa Ragnarsdóttir, sjúkraþjálfari og doktorsnemi við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands, kom í þáttinn í dag og sagði okkur frá þessari rannsókn.
Við litum við í Hörpu þar sem hin 14 ára gamla Eva Jáuregui var á æfingu hjá Íslensku óperunni við æfingar á óperunni Brothers eftir Daníel Bjarnason. Eva fer með hlutverk Nadíu, sem í verkinu er 10 ára gömul, og á laugardaginn mun hún debútera í Hörpu. Verkið fjallar um fórnarkostnað þess að fara í stríð, um bræðralag og ástir og er byggð á samnefndri kvikmynd eftir Susanne Bier sem margir þekkja.
Alþjóðleg Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík er haldin í níunda sinn í Reykjavík á næstunni og hittir að þessu sinni á hrekkjavöku, því verður hrekkjavökuþema á hátíðinni. Við fengum þær Lísu Attensperger og Ásu Baldursdóttur til að segja okkur frá hátíðinni og því sem þar fer fram, til dæmis lifandi talsetning sem verður framkvæmd í fyrsta sinn á hátíðinni, einnig verður dótamarkaður þar sem börnin geta sótt um að vera með bás og fleira.
TÓNLIST Í ÞÆTTINUM
Horfðu til himins / Nýdönsk (Daniel Ágúst og Jón Ólafsson)
Lífsgleði / Hljómar (Gunnar Þórðarsson og Þorsteinn Eggertsson)
Gone, gone, gone / Alison Krauss og Robert Plant (Don Everly og Phil Everly)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR