Á morgun er liðin hálf öld frá heimkomu íslensku handritanna, en fyrstu íslensku handritin flutt aftur heim frá Danmörku með varðskipinu Vædderen 21.apríl 1971. Af því tilefni verður hátíðardagskrá í Hörpu streymt til allra grunnskóla á landinu. Þennan dag kemur einnig í ljós hvaða handrit dómnefnd mat sem framúrskarandi ungmennahandrit í handritasamkeppni Árnastofnunar. Goddur, eða Guðmundur Oddur Magnússon, situr í dómnefnd handritasamkeppninnar og hann kom í þáttinn og sagði frá tengingu handritanna við til dæmis vinsælasta afþreyingarefni samtímans og frá handritakeppninni, sköpunargleði barna og ungmenna og mikilvægi hennar.
Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir kom í þáttinn, en hún er einn verkefnastjóra Vatnsdropans, sem er menningarverkefni sem snýr að því að valdefla börn og vinna með Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Auglýst var eftir börnum í Kópavogi til að taka að sér sýningarstjórnina og taka þannig þátt í Vatnsdropanum, sem er marglaga menningarverkefni til þriggja ára og er ætlað að veita börnum aðgang að ákvarðanatöku í nokkrum helstu menningarstofnunum í Norður-Evrópu. Salvör Gullbrá sagði okkur meira af þessu verkefni í þættinum í dag og einnig frá Krakkaveldi, sem er annað verkefni sem hún vinnur með börnum, þar sem hún gefur þeim tækifæri til að segja hverju þau myndu vilja breyta í heiminum ef þau fengju til þess vald.
Auður Höskuldsdóttir hefur búið næstum alla ævi á Drangsnesi og á Bæ á Selströnd. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, hitti Auði og fékk að heyra meðal annars um æðarrækt í Grímsey á Steingrímsfirði.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON