Dagbjört Andrésdóttir kom í þáttinn í dag og fræddi okkur um heilatengda sjónskerðingu, eða CVI. Það er sem sagt sjónskerðing sem orsakast af skemmdum á sjónbraut og/eða sjónúrvinnslustöðvum í heilanum. Birtingarmyndir CVI eru margvíslegar, til dæmis að missa sjónina undir streitu, talnablinda, andlitsblinda eða að heilinn túlkar ekki rétt það sem augun sjá. Dagbjört sagði okkur sína sögu, en hún greindist ekki fyrr en hún var orðin 26 ára gömul. Meira um þetta hér eftir nokkrar mínútur.
Samtök menntatæknifyrirtækja voru stofnuð í nóvember 2022. Í Samtökum menntatæknifyrirtækja eru fyrirtæki sem öll starfa í menntatækniiðnaði sem er á alþjóðavísu metinn á 24.000 milljarða króna með ríflega 16% stöðugan vöxt milli ára. Menntatækni er rótgróin iðngrein sem á sér áratuga sögu en á Íslandi er greinin tiltölulega ung. Þessi nýju samtök hafa það að markmiði að vinna að hagsmunum og stefnumálum menntatæknifyrirtækja, ásamt því að stuðla að vexti og viðgangi greinarinnar í íslensku menntakerfi. Þær Nanna Elísa Jakobsdóttir, viðskiptastjóri á iðnaðar- og hugverkasviði SI og Írís E. Gísladóttir formaður Samtaka menntatæknifyrirtækja komu í þáttinn.
Tónlist í þættinum í dag:
Ég er á leiðinni / Brunaliðið (Magnús Eiríksson)
Horfðu til himins / Nýdönsk (Jón Ólafsson og Daníel Ágúst Haraldsson)
Dýrð í dauðaþögn / Ásgeir Trausti (Ásgeir Trausti Einarsson og Júlíus Aðalsteinn Róbertsson)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR