Hér stóð búð! er heiti á nýrri ljósmyndasýningu sem verður opnuð á Minjasafni Akureyrar næstu helgi og þar verða sýndar gamlar ljósmyndir af kjörbúðum og sjoppum og fólk er hvatt til að koma við á safninu og rifja upp minningar af kynnum sínum af þessum gömlu búðum. Minjasafnið fagnar 60 ára afmæli á þessu ári og þessi sýning er hluti af því. Við ræddum við Harald Þór Egilsson safnstjóra og Hörð Geirsson sem er safnstjóri ljósmyndadeildar.
Þátttaka kvenna í krabbameinsskimunum hefur farið minnkandi síðustu ár og er Ísland nú eftirbátur hinna Norðurlandanna í þessum efnum. Það er því mikilvægt að vekja athygli á skimunum og reyna að snúa þeirri þróun við. Þetta er málefni sem snertir okkur öll, ekki bara konur, heldur líka karla sem eiga eiginkonur, dætur, mæður, systur, vinkonur og svo framvegis. Við heyrðum í Sigríði Dóru Magnúsdóttir, framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilsugæslunni, til að fræðast um þetta átak og við heyrðum líka í Sigrúnu Waage leikkonu, en hún er ein tólf þjóðþekktra kvenna sem deila persónulegri tengingu sinni við leghálsskimun í ljósmyndasýningunni Er kominn tími á skimun? sem hófst um helgina í Kringlunni.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Bergrún Íris Sævarsdóttir barnabókahöfundur. Hún er þessa dagana stödd í Vatnsdalnum við skriftir á nýrri bók, en í þættinum sagði hún frá því hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og svo frá því hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON