Hildigunnur Birgisdóttir opnar sýninguna Friður í i8 gallerí í dag. Á sýningunni er að finna ný verk eftir Hildigunni, skúlptúra, innsetningu og prentverk, sett saman úr hlutum sem við fyrstu sýn viðrast fábrotnir og hversdagslegir en sem verða stórbrotnir og íbyggnir í meðförum Hildigunnar. Ég hitti Hildigunni í morgun þar sem hún var að leggja lokahönd á sýninguna. VIð ræddum derhúfur, sannleika, fegurð, lauk í netasokkabuxum og aðra hluti, hluti sem varpa ljósi á það hversu falleg en líka kannski uggvænleg mennskan getur verið.
Við kynnum okkur líka nýtt verkefni Bíó Paradísar og Kvikmyndasafns Íslands. Það heitir bíótek, en fram á vor á að sýna á fyrsta sunnudegi í hverjum mánuði sérvaldar íslenskrar og norrænar kvikmyndir í bíóinu góða við Hverfisgötu en vegna samkomutakmarkanna að undnaförnu verður fyrsta slíka bíótekið núna á sunnudag, á þriðja slíkum í mánuðinum. Estar Bíbi Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri hjá Kvikmyndasafninu segir okkur frá eftir stutta stund.
Selma Reynisdóttir, er dansari og danshöfundur sem býr og starfar um þessar mundir í Helsinki. Selma hefur undanfarið verið að rannsaka það tímabil Íslandssögunnar þegar landsmönnum var bannað að dansa. Bannið var sett á af kirkjunni um siðaskiptin og ætlar Selma að skoða í nokkrum pistlum hér í Víðsjá, hvaða áhrif bannið hafði á íslenskt samfélag.
Umsjón: Guðni Tómasson og Halla Harðardóttir