Í dag er alþjóðlegur dagur gegn krabbameini og föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var séra Hildur Eir Bolladóttir prestur í Akureyrarkirkju. Hildur greindist tvisvar með krabbamein á síðustu tveimur árum og hefur verið opin og einlæg með baráttu sína á samfélagsmiðlum. Fyrir nokkrum dögum kom svo út ný ljóðabók eftir hana sem heitir Meinvarp. Hildur var í beinni útsendingu með Guðrúnu frá hljóðstofu RÚV á Akureyri í dag.
Matarspjallið var einnig að norðan í dag. Við veltum fyrir okkur þjóðlegum og norðlenskum bakstri með tveimur kjarnakonum sem hafa rekið Kaffi Ilm á Akureyri undanfarin 10 ár en kaffihúsið er lokað yfir vetrartímann. Þær Þórhildur Þórhallsdóttir og Ingibjörg Baldursdóttir opnuðu þó dyrnar í dag fyrir útsendara Mannlega þáttarins því við fengum að kynnast sögu þessa gamla húss sem stendur svo tignarlega gult í skátagilinu.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON