Rósa María Hjörvar, doktorsnemi í bókmenntafræði, flytur á fimmtudaginn fyrirlesturinn Eitruð karlmennska og perlufestar í óbyggðum norðursins, en hann er hluti af hádegisfyrirlestraröð RIKK, Rannsóknastofnunar í jafnréttisfræðum við HÍ. Þar skoðar hún hinsegin persónur í þremur frægum bókum sem skrifaðar eru á mismunandi tímum, Gróður jarðar eftir Knut Hamsun, Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxnes og Höfundur Íslands eftir Hallgrím Helgason. Hún segir að saga þessara persóna spegli breytileg viðhorf til hinseginleika og karlmennsku. Rósa útskýrði þetta betur í þættinum.
Svo forvitnuðumst við um nýja útgáfu af gestabókinni sem var til á öllum heimilum, en sést varla í dag nema í brúðkaupum og fermingaveislum. Kristborg Bóel Steindórsdóttir vill einmitt endurvekja gestabókamenninguna hér á landi og blása lífi í þessa arfleifð og hún lét ekki þar staðar numið því hún ákvað líka að gefa út bók þar sem fólk getur haldið utan um drauma sína, þ.e. ekki drauma næturinnar, heldur sem þá drauma sem við vonum að rætist. Kristborg sagði okkur meira frá þessu í dag.
Við sögðum svo frá spili sem sker sig dálítið frá öðrum skemmtispilum sem eru í boði. Það kallast Húsið og varð til sem lokaverkefni Helgu Berglindar Sigurþórsdóttur og Gunnu Stellu Pálmarsdóttur í Fjölskyldumeðferð hjá Endurmenntun H.Í. Þær eiga samtals margra ára reynslu af vinnu með börnum, unglingum og fullorðnum. Húsið er spurningaspil sem opnar á allskyns samræður og er hugsað sem tengslaeflandi verkfæri sem fær börn til að kynnast foreldrum sínum betur, ömmur og afa til að kynnast barnabörnunum, systkini til að tala saman á dýpri hátt og vináttu til að eflast. Helga og Gunna komu í þáttinn í dag.
Tónlist í þættinum í dag:
Að vera í sambandi / Stuðmenn (Jakob Frímann Magnússon)
Take me dancing / Hafdís Huld (Hafdís Huld Þrastardóttir og Tim Gordine)
Girl from Before / Blood Harmony (Örn Eldjárn Kristjánsson)
Ready Teddy / Buddy Holly (John Marascalco og Robert Blackwell)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR