Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var leikarinn Hjörtur Jóhann Jónsson. Hann hefur á þeim rúma áratug síðan hann útskrifaðist sem leikari leikið fjölmörg hlutverk á leiksviði, í sjónvarpi og kvikmyndum. Hann lék til dæmis Ríkharð III. og MacBeth eftir Shakespeare, Skarphéðinn Njálsson í Njálu og miklu fleiri hlutverk. Hann leikur aðalhlutverkið í nýrri íslenskri kvikmynd, Óráð, sem fer í almenna sýningu í kvöld. Óráð er hrollvekja sem tekin var upp í heimsfaraldrinum og samkvæmt eiginkonu Hjartar er hann mjög hryllingsmyndahræddur. Við töluðum við Hjört um það að leika þessi stóru Shakespeare hlutverk, hjátrú í leikhúsi, að rýna í handritið og svo auðvitað sagði hann okkur frá nýju kvikmyndinni, Óráð, og hvernig það var fyrir hann að leika í sálfræðihrollvekju þrátt fyrir að vera svona hræddur við þess háttar kvikmyndir.
Í matarspjalli dagsins, sem var það síðasta fyrir páska, þá notuðum við tækifærið og spjölluðum um lambakjöt, páskalambið. Lambið hefur sterka tengingu við páskahátíðina og við fórum yfir hvernig okkur þykir það best framreitt.
Tónlist í þættinum í dag:
Landsímalína / Spilverk þjóðanna (Valgeir Guðjónsson og Sigurður Bjóla Garðarsson)
Fade Into You / Mazzy Star (Sandoval & Roback)
Brotlentur / Valdimar (Valdimar Guðmundsson og Ásgeir Aðalsteinsson)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON