Margir eiga sér þann draum að binda á sig hlaupaskóna og fara út að hlaupa. Það virðist einfalt en samt getur þetta vafist fyrir fólki. Er manni óhætt að byrja án undirbúnings? Þarf maður sérstaka hlaupaskó? Skiptir aldur máli? Hvað með hlaupastílinn o.s.frv.? Út er komin bók sem heitir einfaldlega Hlaupabókin, höfundurinn Arnar Pétursson kom í þáttinn í dag.
Betra æskulýðsstarf er yfirskrift málþings sem fer fram í fyrramálið og þar verða rætt um íslenskar æskulýðsrannsóknir 2019. Fram koma erlendir fyrirlesarar og rætt verður meðal annars um íslenska íþróttamódelið hvort það virki,ungir hælisleitendur og frítími, fjárhagsstaða og þáttaka í félagsmiðstöðvum og margt fleira forvitnilegt. Árni Guðmundsson er sérfræðingur í æskulýðsmálum og hann ætlar að flytja erindi sem nefnist: Það sem ekki sést - þættir í starfi félagsmiðstöðva. Árni kom í þáttinn í dag.
Jódís Skúladóttir, lögfræðingur, skrifaði grein sem birtist á austurfrett.is undir yfirskriftinni Hinsegin Austurland. En til stendur að stofna samnefnt félag í janúar til að geta boðið öllu hinsegin fólki á Austurlandi athvarf og skjól, eins og segir í greininni. Hún segir að í áranna rás hafi hinsegin fólk á landsbyggðinni að miklum mæli gefist upp og farið til höfuðborgarinnar. Með þessu framtaki vilja þau breyta þessari þróun. Við hringdum í Jódísi í þættinum og fengum hana til að segja okkur frekar frá.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON