Í Víðsjá í dag koma hljóðheimar við sögu, hugað verður að hljóðum og tónlist, við kjöraðstæður í tónleikahúsinu Hörpu. Gauti Kristmannsson bókmenntagagnrýnandi fjallar í dag um skáldsöguna Endurfundir á Brideshead eftir enska rithöfundinn Evelyn Waugh en bókin er nýlega komin út í íslenskri þýðingu Hjalta Þorleifssonar. Skáldsagan kom fyrst út árið 1945 en margir muna eftir rómuðum sjónvarpsþáttum sem gerðir voru eftir sögunni árið 1981 með þeim Jeremy Irons og Anthony Andrews í aðalhlutverkum. Og á fimmtudögum í janúar hefur Gunnar Þorri Pétursson, þýðandi og fræðimaður, flutt pistla í Víðsjá. Pistlaröðina kallar hann Varsjá enda er ferðinni heitið aftur á bak í tímann og austur á bóginn. Í dag fjallar Gunnar um Ingibjörgu Haraldsdóttur og þýðingar hennar á rússneskum skáldkonum. Lokapistill hans nefnist „Marr í hvítri mjöll.“