Konur nú til dags hafa fjölmörg verkefni á sinni könnu og eru oft á tíðum undir miklu álagi og með marga bolta á lofti og hormónakerfi kvenna er ákaflega næmt fyrir síbreytilegu áreiti, streitu og öðrum umhverfisþáttum. Ásdís Ragna Einarsdóttir útskrifaðist í grasalækningum frá University of East London árið 2005 og hefur rekið eigin stofu um árabil , hún heldur reglulega fyrirlestra og námskeið um heilsu kvenna og hormóna, breytingaskeið kvenna og hvernig konur geta bætt sína heilsu og vellíðan en hún hefur beitt sér sérstaklega á þessu sviði. Við heyrðum í Ásdísi í þættinum í dag.
Hvað gerist í líkama okkar þegar við roðnum? Af hverju grátum við, hvað kallar fram tárin í augum okkar og af hverju fáum við gæsahúð, eða hroll? Við höfum verið til dæmis fjallað um athyglisbrest í þættinum, hvað gerist í líkama þeirra sem glíma við athyglisbrest, eða hjá þeim sem eru lesblindir? Við rifjuðum í dag upp viðtal við Þór Eysteinsson lífeðlisfræðing, sem var áður flutt í Mannlega þættinum fyrir rúmu ári, þar svarar hann þessum spurningum og fleirum.
Leikfélag Hólmavíkur er líklega eitt virkasta áhugamannaleikfélag landsins. Frá árinu 1981 - hafa verið sýndar meira en fimmtíu leiksýningar, stundum tvær á ári. Í ár setti leikfélagið upp leikritið Stella í orlofi sem er unnið upp úr hinni vinsælu samnefndu kvikmynd og frumsýningin var 6. Mars síðastliðinn. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, hitti leikstjórann og handritshöfundinn Gunnar Gunnsteinsson eftir vel heppnaða sýningu og ræddi við hann um sýninguna.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON