Öll eldumst við, auðvitað mishratt en tíminn virðist líða hraðar eftir því sem maður eldist. Hreyfing verður æ mikilvægari með aldrinum og aftur og aftur kemur í ljós gríðarlegt gildi góðrar hreyfingar fyrir heilsuna. Hvers konar hreyfingu mæla sjúkraþjálfarar með þegar aldurinn færist yfir? Hvað er næg hreyfing og hvað er of mikil hreyfing? Er hægt að hreyfa sig of mikið? Sjúkraþjálfun aldraðra er sérsvið Sólveigar Ásu Árnadóttur, prófessors við Háskóla Íslands. Hún kom í þáttinn í dag og fræddi okkur um mikilvægi hreyfingar þegar við eldumst.
Í dag kynntumst við nýjum pistlahöfundi, Guðjóni Helga Ólafssyni. Hann verður með pistla næstu mánudaga í þættinum sem hann kallar vinkla. Guðjón segist vera skúffuskáld og þjóðfræðiáhugamaður úr Flóanum sem hefur stundað í nokkur ár að búa til pistla og birta á samfélagsmiðlum. Hann býr með fjölskyldu sinni á bænum Sviðugörðum í gamla Gaulverjabæjarhreppi en stundar ekki hefðbundinn búskap, heldur nokkrar hænur, ræktar tré og svolítið af kartöflum til heimilis- og einkanota. Við heyrðum fyrsta vinkil Guðjóns Helga í þætti dagsins.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Jakub Stachowiak, rithöfundur og bókavörður. Við fengum að vita hvaða bækur hann hefur lesið undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft sérstök áhrif á hann í gegnum tíðina.
Tónlist í þættinum í. dag:
1) Barn / Ragnar Bjarnason og Björgvin Halldórsson (Ragnar Bjarnason, Steinn Steinarr)
2) You don?t have to say you love me / Dusty Springfield
3) Lag ljóð / Spilverk Þjóðanna (Spilverk Þjóðanna)
4) Ameríka / Memfismafían og Valdimar Guðmundsson og Þorsteinn Einarsson (Magnús Eiríks, Bragi Valdimar Skúlason)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON