Við sendum í dag út beint frá húsnæði Hugarafls í Síðumúla. Hugarafl eru félagasamtök fólks sem hefur upplifað persónulega krísu og vinnur að persónulegum bata sínum. Þetta eru grasrótarsamtök fólks með andlegar áskoranir á Íslandi og var stofnað árið 2003. Starfsemi Hugarafls er mótuð bæði af einstaklingum með persónulega reynslu af andlegum áskorunum og einstaklingum með fagmenntun. Þátttaka í starfsemi Hugarafls er fyrir öll, 18 ára og eldri, sem hafa áhuga á að vinna í geðheilsu sinni á eigin forsendum. Starfsemin er gjaldfrjáls, óháð búsetu og engin krafa er gerð um tilvísanir né geðsjúkdómagreiningar. Við ræddum við Auði Axelsdóttur framkvæmdastjóra Hugarafls, Grétar Björnsson kennara og félagsfræðing, sem tók fyrst þátt í starfinu árið 2006 og svo heyrðum við í Bjarna Karlssyni presti sem er með kyrrðarstund hjá Hugarafli á miðvikudögum í hádeginu.
Við fengum svo póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni í dag og póstkortið barst að þessu sinni frá Kúbu, en Magnús hefur verið þar í heimsókn undanfarinn hálfan mánuð. Hann segir í kortinu af upplifun sinni af Havana, fólkinu, músíkinni og kúltúrnum en líka frá einræðinu og kúguninni sem ríkir í skjóli kommúnismans. Fátæktinni, matar- og lyfjaskorti sem veldur uppþotum og óeirðum af og til. En veðurfarið er dásamlegt segir Magnús og strendurnar fagrar.
Tónlist í þættinum í dag:
Einu sinni enn / Bergur Ebbi og Dói (Sveinn Þórir Geirsson og Bergur Ebbi Benediktsson)
Our House / Crosby, Stills, Nash & Young (Graham Nash)
Tiene sabor / Buena Vista Social Club (Ignacio Piniero og Rolando Valdes)
Hægt en bítandi / Tómas R. Einarsson (Tómas R. Einarsson)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR