Í tilefni af bleikum október stendur Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, fyrir viðburðinum Kröftug kvennastund í Iðnó á morgun. Þar koma fram konur sem deila reynslu sinni, hvert þær sækja sinn styrk og hvernig þær hafa tekist á við áskoranir, hvort sem er í starfi eða persónulega lífinu. Hulda Bjarnadóttir, forseti Golfsambands Íslands, fjölmiðlakona og fyrrum framkvæmdastjóri Krafts, greindist með BRCA genið og lét fjarlægja brjóstin og eggjastokkana í kjölfarið af greiningunni. Hulda sagði okkur sína reynslusögu í þættinum í dag.
Við fengum nýjan vinkil frá Guðjóni Helga Ólafssyni. Í dag bar hann vinkilinn við bankastarfsemi í víðu samhengi, eins og hann orðar það.
Í þetta sinn var lesandi vikunnar Bragi Ólafsson rithöfundur. Það er að koma út ný bók eftir hann sem við fengum hann til að segja okkur frá en svo fengum við hann auðvitað til að segja okkur frá því hvað hann hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hann í gegnum tíðina.
Tónlist í þættinum í dag:
Sólarsamban / Rebekka Blöndal (Ásgeir Ásgeirsson, Rebekka Blöndal og Stefán Örn Gunnlaugsson)
Lay it Down / Everyl Brothers (Gene Thomas)
Crazy / Patsy Cline (W. Nelson)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR