Öryggismál og forvarnir Forvarnaráðstefna VÍS verður haldin í dag milli kl. 13 og 16, á Hilton Reykjavík Nordica. Ráðstefnan, sem var fyrst haldin árið 2010, hefur skapað sér sess sem fjölsóttasti viðburður sinnar tegundar á Íslandi. Þar er kastljósinu beint að öryggismálum sem og forvörnum fyrirtækja og stofnana. Vel valdir sérfræðingar og stjórnendur á þessu sviði deila reynslu sinni með ráðstefnugestum. Elfa Þöll Grétarsdóttir, sérfræðingur í hjúkrun hjá Landspítala, ræðir um hver beri ábyrgð á kulnun og hún kom í þáttinn í dag og sagði frá.
Alþjóðlega sveifluhátíðin Lindy on Ice fer fram um helgina, en Sveiflustöðin stendur fyrir henni, auk þess að standa fyrir grunn og framhaldsnámskeiðum í sveifludansi, eða lindy hop. Það er erfitt að sitja kyrr þegar maður horfir á fólk dansa þennan gleðidans, en lindy hop er afró-amerískur dans sem þróaðist í Harlem í New York-borg upp úr 1927. Hann var sambland af mörgum dönsum svo sem jazz, tappi, breakaway og Charleston. Við fengum þá Sigurð Helga Oddsson píanóleikara og sveifludansara og Braga Árnason til þess að segja okkur frá því af hverju sveifludans virðist vera að fagna auknum vinsældum hér á fróni.
Sjóböð og kaldir pottar geta dregið úr verkjum og bólgum, styrkt sjálfsmat og dregið úr kvíða þeirra sem þau stunda en ef þau eru of köld geta þau verið hættuleg. Þetta segir Björn Rúnar Lúðvíksson, ónæmislæknir sem sjálfur hefur stundað sjóböð frá barnsaldri. Bergljót Baldursdóttir ræddi við hann á Heilsuvaktinni í dag.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON