Við byrjuðum þáttinn í dag, eins og alla mánudaga og fimmtudaga undanfarið, á því að senda út upphafið á upplýsingafundi almannavarna, því var þáttur dagsins styttri sem því nemur.
Hugmyndasöfnun fyrir lýðræðisverkefnið ,,Hverfið mitt'' hófst í síðustu viku og stendur til 20. janúar 2021. Nú eru íbúar Reykjavíkur beðnir um að koma með hugmyndir að dýrari verkefnum enda hefur fjármagn verið nær tvöfaldað. Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnastjóri, segir að stærri verkefni kalli á aukið samráð borgarinnar við íbúa „Þar sem óskað er eftir stærri verkefnum í hugmyndasöfnuninni að þessu sinni eru íbúar hvattir til að eiga samtal við nágranna um góðar hugmyndir sem geta nýst hverfinu vel.“ Þetta er í níunda sinn sem hugmyndasöfnunin fer fram en 787 hugmyndir hafa orðið að veruleika síðan verkefnið hófst. Við ræddum við Eirík Búa um þetta í þættinum í dag.
Guðrún C. Emilsdóttir heimspekingur og formaður bandalags þýðenda og túlka var lesandi vikunnar í þetta sinn. Við fengum að vita hvaða bækur eru á náttborðinu hjá henni, hvað hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina.
UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR