Tæknin þróast hratt, snjalltækin eru í vösum okkar og á heimilum okkar og snertifletir þeirra við líf okkar verða sífellt fleiri. Þessum snjalltækjum er stýrt í auknum mæli með rödd okkar. Þau skilja okkur, hlýða okkur og svara. Eða hvað? Þau skilja að minnsta kosti ensku og öll algengustu tungumál. En skilja þau íslensku? Það hefur talsvert vantað upp á það hingað til, en nú lítur út fyrir að það sé að breytast til hins betra. Við fræddumst um stöðuna í þessum málum og hversu langt sé í að snjalltækin verði reiprennandi á íslensku hjá Vilhjálmi Þorsteinssyni frumkvöðli og hugbúnaðarhönnuði, en hann og fyrirtæki hans Miðeind eru einmitt að vinna í þessum málum og komin nokkuð vel á veg.
Margt fólk verður með tímanum langþreytt á hlutverki sínu innan fjölskyldunnar og nennir ekki lengur að vera alltaf þessi hressa og hjálpfúsa týpa eða tæknitröllið eða sáttamiðlarinn eða svarti sauðurinn eða samkomuhaldarinn eða hvar maður einu sinni lenti í hlutverkalottói fjölskyldukerfisins. Og þegar maður þolir ekki lengur gamla hlutverkið sitt er stutt í að manni líði eins og maður þoli ekki fólkið sitt. Þá þarf að tala saman. Þetta skrifaði Bjarni Karlsson í fréttablaðið í síðustu viku, við ræddum við hann hvernig þessi mál geta þróast innan fjölskyldna.
Fyrir viku síðan heyrðum við Ásgeir Gunnar Jónsson segja frá sögu, upphafi og endalokum síldarverksmiðjunnar, á Eyri við Ingólfsfjörð. En nú gekk Ásgeir Gunnar Jónsson með Kristínu okkar Einarsdóttur um verksmiðjurnar sjálfar og sagði frá tækjum og tólum og útskýrir hvernig síldarvinnslan gekk fyrir sig.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON