Steinunn Ragnarsdóttir, óperustjóri Íslensku óperunnar kom í þáttinn. Við fengum að vita hvernig árið hefur verið í kófinu fyrir Íslensku óperuna og hvernig veturinn og dagskráin verður framundan.
Hann var ansi óheppin hann Ólafur Kjartan Sigurðarson óperusöngvari, eins og hægt var að lesa í facebookfærslu hans frá 23 september sl. "Ég var álíka kátur að mæta í fyrsta skipti til vinnu í Deutsche Oper og þegar ég fyrst mætti í Bayreuth.(Bærojt) Stór draumur að rætast. En, tveimur klukkustundum eftir að þessi mynd var tekin í gær var ég kominn í sjúkrabíl með hnén í maski eftir ömurlegt slys. Og í stað þess að mæta á fyrstu sviðsæfingu á Ragnarökum í dag bíð ég aðgerðar í kvöld." Við slógum á þráðinn til Ólafs til Berlínar og heyrðum hvað gerðist í rauninni og hvernig staðan væri hjá honum, t.d. uppá verkefni hans á næstu mánuðum.
Gunnar Hrafn Jónsson kom í þáttinn í dag með nýja dagskrárliðinn Skrýtin veröld, sem verður hjá okkur annan hvern miðvikudag. Þar finnur hann skrýtnar, skemmtilegar og umfram allt áhugaverðar fréttir víðs vegar að og flytur okkur. Í dag sagði hann okkur frá trúðaskorti á Norður Írlandi, frá dularfulla fjárfestinum Mr. Goxx, vandræðalegum mistökum hjá gervigreind Facebook og svo frá Ig Nobel verðlaununum sem voru afhent á dögunum, samhliða sjálfum Nóbelsverðlaununum, en þessi fyrrnefndu verðlauna sem sagt óvenjulegar, furðulegar og jafnvel asnalegar rannsóknir.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON