Við fjölluðum í dag um járnofhleðslu sem er erfðatengdur sjúkdómur og getur, ómeðhöndlaður, leitt til krabbameins í lifur og valdið lömun. Þessi sjúkdómur er býsna algengur og nauðsynlegt er að ná að greina hann snemma og meðhöndla. Greining og meðhöndlun er nokkuð einföld, en það þarf sem sagt að tappa af blóði reglulega. Nú er vitundarvakningarverkefni í gangi sem hlaut hæsta styrk Rótarýhreyfingarinnar og Sveinn Óskar Sigurðsson bæjarfulltrúi í Mosfellsbæ og félagi í Rótary kom í þáttinn og sagði frá járnofhleðslu, en hann er sjálfur með sjúkdóminn og einnig nokkrir félagar í hans deild.
Við höfðum séð undanfarið fréttir í hinum ýmsu miðlum um mikinn músagang í híbýlum um allt land. Hlýtt veður í haust og svo mikill kuldatíð í kjölfarið orsakar að mýsnar leita inn á heimili landsmanna í leit að mat og hlýju. Mörgum finnst þær agalega sætar, aðrir eru afskaplega hræddir við mýsnar. Hvort sem er, þá fylgja því ýmsar hættur þegar mýs leita inn í húsin okkar, til dæmis eldhætta því þær eiga það til að naga rafmagnsleiðslur og jafnvel gasleiðslur, t.d. á útigrillum. Við fengum Þóru Jóhönnu Jónasdóttur, dýralækni, sem sér um dýravelferð, heilbrigði og velferð gæludýra hjá MAST til þess að fara með okkur yfir hvað er hægt að gera í þessum músagangi, því ekki er sama hvernig músagildrur eru notaðar.
Gunnar Hrafn Jónsson var svo hjá okkur með sína skrýtnu veröld, þar sem hann er mjög þefvís á furðulegar, fyndnar, skrýtnar og áhugaverðar fréttir víðs vegar að úr heiminum. Í dag sagði hann okkur frá ráðagerð föður breska forsætisráðherrans að gerast franskur ríkisborgari, vandræðalegum uppákomum í Downingstræti með hund sama forsætisráðherra, sérþjálfaða Covid-hunda í Chile og fleira.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON