Á morgun verðurhaldin ráðstefna og kveðjuhóf til heiðurs stórmerkilegum vísindamanni, Jóhanni Pétri Malmquist, prófessor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, sem lætur nú að störfum fyrir aldur sakir. Jóhann Pétur varð fyrsti Íslendingurinn til að verja doktorsritgerð í tölvunarfræðum árið 1979 og hefur átt þátt í að mennta þúsundir tölvunarfræðinga hér á landi og sjálfur komið að stofnun margra sprotafyrirtækja og verið alþjóðlegur ráðgjafi hjá fyrirtækjum eins og Apple Computers og Software AG.
Evrópska samgönguvikan hefst í dag og fjöldi viðburða verða haldnir hér á landi í vikunni í tilefni þess. Í dag verður hjólaferð í samvinnu við Umhverfisstofnun og Listasafn Íslands, á föstudaginn verður ráðstefnan Hjólum til framtíðar og á sunnudaginn verður Bíllausi dagurinn, fjölskylduhátíð með göngu niður Miklubraut, Hringbraut og endar við Lækjargötu sem allar verða lokaðar fyrir akandi umferð á meðan á göngunni stendur. Þær Þórhildur Fjóla Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Grænni Byggðar og Sesselja Traustadóttir, framkvæmdastjóri Hjólafærni á Íslandi komu í þáttinn og sögðu frá dagskrá vikunnar.
Lesandi vikunnarí þetta sinn var Óskar Guðmundsson rithöfundur og framkvæmdastjóri Iceland Noir glæpasagnahátíðarinnar. Við fengum að vita hvaða bækur eru á náttborðinu hjá honum, hvað hann hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hann í gegnum tíðina.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON