Það er nægur snjór hér á Akureyri og það frysti dálítið í nótt þannig að fólk þarf að vara sig á svellinu sem er víða. Fólk er almennt í hátíðarskapi og ekki sá ég nokkurn mann hlaupa á milli búða í morgun enda Akureyringar annálaðir fyrir gott skipulag og hér eru menn duglegir við að bóna bílana sína, þeir segja að með því renni snjórinn frekar af bílunum. Guðrún fór með hljóðnemann á Glerártorg í gær og spurði fólk út í jólahaldið
Kaffistofa Samhjálpar er opin alla daga ársins, en þar er boðið upp á morgunkaffi, meðlæti og heita máltíð í hádeginu, um helgar jafnt sem helgidaga eins og aðfangadag og jóladag. Um 67 þúsund máltíðir eru gefnar á Kaffistofunni á hverju ári. Guðmundur Sigurbergsson, fjármálastjóri Samhjálpar og Jóna Björg Howard, verkefnisstjóri kaffistofunnar tóku á móti Mannlega þættinum og sögðu okkur frá þessu góða starfi sem þar er unnið.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON