Samkvæmt tölum Hagstofunnar frá árinu 2016 var meðalævilengd karla á Íslandi 80,7 ár og meðalævilengd kvenna 83,7 ár. Þessar tölur hafa hækkað stöðugt síðustu hundrað ár. Í þættinum í dag ætlum við að velta því fyrir okkur hversu lengi það getur haldið áfram. Og það sem meira er, geta framfarir í læknavísindum undanfarið jafnvel gefið okkur von um að mannfólkið geti lifað talsvert lengur? Jafnvel orðið 150 ára eða eldri? Það sem kveikti áhuga okkar á þessu var að einn þekktasti vísindamaður í heiminum á þessu sviði, David Sinclair hjá læknadeild Harvard háskóla, hefur talað um það í ræðu og riti að ekki sé nóg með að hægt sé að hægja á og jafnvel stöðva aldurstengda hrörnun líkamans, heldur sé jafnvel hægt að snúa slíkri þróun við. Í rauninni sé hægt að yngja fólk samkvæmt þessu. Þetta, ef satt reynist, er auðvitað einhver stærsta frétt sem hefur komið fram og þetta snertir alla, eða hlýtur að gera það. Þá var ekkert annað að gera en að fá okkar þekktasta vísindamann til þess að fara með okkur yfir það hvað væri til í þessu. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar kom í þáttinn í dag og fór yfir það hvort honum fyndist eitthvað til í þessu og hvort þessar fullyrðingar Sinclair héldu vatni. Er 150 ára mannfólk handan við hornið?
UMSJÓN GUNNAR HANSSON