Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var Karl Ágúst Úlfsson. Það sem hann hefur áorkað á u.þ.b. 40 árum á sínum ferli er ansi magnað, hvort sem er sem leikari, leikstjóri, leikskáld, þýðandi og rithöfundur. Það var auðvitað Spaugstofan, tæplega fimm hundruð þættir á næstum þrjátíu árum, svo eru það öll leikverkin, þýðingarnar, bækurnar, við hefðum getað eytt þættinum í að telja upp allt sem hann hefur gert, en það var miklu skemmtilegra að fá hann sjálfan til að stikla á stóru með okkur. Við fórum með honum aftur í tímann og svo á handahlaupum í gegnum lífið til dagsins í dag. Og svo forvitnuðumst við líka um nýja verkið hans, Fíflið, sem er sýnt í Tjarnarbíói, en hann bæði skrifar og leikur í því.
Sigurlaug Margrét kom svo til okkar í matarspjallið í dag. Hún er nýkomin frá London, þar sem hún meðal annars var óvart í jarðaför Elísabetar drottningar. Það var því breskt þema með konunglegu ívafi í matarspjalli dagsins.
Tónlist í þættinum í dag:
Hvítu mávar / Helena Eyjólfsdóttir (Walter Lange og Björn Bragi Magnússon)
Lalala / Hildur Vala Einarsdóttir (Svavar Knútur Kristinsson og Karl Ágúst Úlfsson)
Mér er ekkert heilagt / Karl Ágúst og Eyvindur Karlsson (Eyvindur Karlsson og Karl Ágúst Úlfsson)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON