Klúbbur matreiðslumeistara sem á og rekur kokkalandsliðið hefur valið Ara Þór Gunnarsson sem nýjan þjálfara liðsins. Ara er falið það verkefni að fylgja eftir frábærum árangri liðsins á síðasta stórmóti, þegar kokkalandsliðið kom heim með bronsverðlaun frá Ólympíuleikunum í matreiðslu sem haldnir voru í Stuttgart. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ari tekur að sér þjálfun en hann var aðstoðarþjálfari fyrir Norrænu nemakeppnina 2011 og 2012 og var svo aðalþjálfari 2013 og 2014 með góðum árangri.
Við hringdum austur í land í Rán Freysdóttur. Hún rekur veitingastaðinn Við Voginn á Djúpavogi þar sem hún er fædd og uppalin. Hún lærði innanhúsarkitektúr í Bandaríkjunum, Ítalíu og Þýskalandi, flutti heim eftir 10 ár erlendis og stofnaði hönnunarfyrirtæki fyrir austan sem hefur unnið fjölmörg verkefni en endaði svo með því að kaupa veitingastað, sem hún rekur í dag, sem býður nær eingöngu upp á mat úr héraði og nú er hún ein af þeim sem tengist verkefninu Matarauður Austurlands. Við fengum hana til að segja okkur sína sögu og frá matarkistu og matarmenningu Austurlands í þættinum í dag.
Við fengum póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni á Spáni og í póstkorti dagsins fjallaði hann eins og oft áður um ástandið í landinu vegna kórónuveirunnar, en góðu fréttirnar þaðan eru þær að dregið hefur verulega úr smiti sem bendir til þess að aðgerðir yfirvalda eru að skila góðum árangri. Nú binda Spánverjar vonir við að sumarið verði miklu betra en í fyrra og ferðamenn skili sér í auknum mæli. Það var líka sagt frá þeim mikla vanda sem er að skapast vegna farandfólks og flóttamanna, en straumur þeirra hefur til að mynda hvorki meira né minna en tífaldast til Kanaríeyja á aðeins tveim árum. Í lokin sagði af nafnahefð Spánverja, en þar heitir fólk yfirleitt mörgum nöfnum og tveim eftirnöfnum.
UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR