Um síðastliðna helgi gengu 126 konur á Kvennadalshnúk eins og þær nefndu Hvannadalshnúk í þessari göngu. Flestar gengu þær í minningu konu eða kvenna sem hafa fengið krabbamein og þær söfnuðu fé fyrir Lífskraft styrktarfélag Kvennadeildar Landsspítalans. Þetta var mögnuð ganga segja þær og afar tilfinningarík og allar komust þær niður aftur en það er ekki svo sjálfsagt þegar gengið er þessa leið sem er ein erfiðasta dagleið í Evrópu. Brynhildur Ólafsdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir, sem voru meðal þessara 126 kvenna, komu í þáttinn og sögðu frá þessari mögnuðu reynslu.
Breiðfirðingurinn og æðarbóndinn, Eggert Thorberg Kjartansson samdi og sendi inn fimm lög í danslagakeppni SKT árið 1953. Svo illa vildi til að nóturnar að lögunum glötuðust en nú, tæpum 70 árum síðar, hafa þau verið útsett og nýr texti saminn við þrjú þeirra. Dóttir Eggerts, Lilja, hefur útsett lögin og hljómsett og bróðir hennar Snorri samdi textana. Þau systkinin komu í þáttinn og sögðu okkur þessa fallegu sögu.
Nýlega var stofnað fyrirtæki í Strandabyggð sem hlaut nafnið Kyrrðarkraftur. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, hitti forsprakkann, Esther Ösp Valdimarsdóttur sem útskýrir markmið og áherslur þessa merkilega fyrirtækis sem er að hennar sögn endurhleðslusetur.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON