Síðastliðinn fimmtudag var alþjóðlegur baráttudagur Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Sökum heimsfaraldursins féll Ljósaganga UN Women á Íslandi niður í annað sinn. Í nýrri skýrslu UN Women kemur fram að 2 af hverjum 3 konum, eða konur sem þær þekkja, hafa verið beittar ofbeldi. Níu af hverjum tíu konum í Afganistan eru beittar ofbeldi af maka sínum á lífsleiðinni og fer sú tala hækkandi. Frá valdatöku Talíbana hefur staða afgangskra kvenna versnað til muna. Stella Samúelsdóttir framkvæmdastýra UN Women kom í þáttinn og fræddi okkur frekar um stöðu kvenna í Afganistan.
Það hefur færst í vöxt undanfarin ár að fullorðið fólk fari á skipulögð sundnámskeið, skriðsund og Garpasund eru vinsæl og við brugðum okkur í heimsókn í Sundlaug Kópavogs þar sem eitt slíkt námskeið er í gangi og tókum þáttakendur tali og töluðum við þjálfarann Hákon Jónsson.
Á öllum árstímum erum við Íslendingar uppteknir af veðrinu, á sumrin afþví að þá erum við mögulega að ferðast um landið - á vetrum af því þá getur færð spillst og ef veður versnar þarf að huga að lausum munum eins og oft heyrist minnt á. Eiríkur Valdimarsson er ekki veðurfræðingur sem birtist á skjánum en hann hefur um lengi velt fyrir sér alþýðlegum veðurspám og bjó nýlega til feisbúkk síðuna Alþýðulegar veðurspár. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, hitti Eirík og fékk hann til að segja frá áhuga sínum og rannsóknum á veðri.