Sérfræðingur vikunnar í Mannlega þættinum var Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður og framkvæmdastjóri rafiðnaðarsambandsins. Við fengum hann til að fræða okkur um rafmagn og til að segja frá sínu starfi, bæði hjá sambandinu og sem iðnaðarmaður. Svo í seinni hlutanum svaraði hann spurningum sem hlustendur voru búin að senda inn í pósthólf þáttarins. Spurningarnar voru fjölbreyttar og áhugaverðar um allt frá flökti í ljósum, hvort væri meiri eldhætta af rafbílum en jarðefnaeldsneytisbílum og til gamalla ljósakróna.
Í lok þáttar kom Nichole Leigh Mosty, forstöðumaður Fjölmenningarseturs, í þáttinn og hún sagði okkur aðeins frá þeirri stöðu sem er komin upp í sambandi við flóttafólkið frá Úkraínu. Margir hafa boðið fram aðstoð, húsnæði og jafnvel atvinnu fyrir flóttafólkið, en það er ýmislegt sem þarf að hafa í huga þegar farið er út í slíka aðstoð. Nichole fær gríðarlega mikið af fyrirspurnum og heyrir af mörgum dæmum og hún fræddi okkur um það sem þarf að hafa í huga þegar boðin er fram aðstoð fyrir flóttafólk frá stríðshrjáðum svæðum.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON