Fyrir helgi fór fram málstofan Birtingarmyndir kynbundins ofbeldis og viðbrögð við því þar sem fjallað var um kynbundið ofbeldi frá ýmsum hliðum. Þar var, í nokkrum erindum, leitast við að svara eftirfarandi spurningum: Hvað eiga konur sem leitað hafa á bráðamóttöku vegna heimilisofbeldis sameiginlegt? Hvernig bregðast konur við kynferðislegri valdbeitingu á vinnustað? Hver eru viðbrögð þeirra sem sökuð eru um kynferðisofbeldi? Falla meiðyrðamál stefnendum eða stefndu í vil? Og hvaða áhrif hefur skrímslaorðræðan á gerendur? Við fengum Drífu Jónasdóttur, afbrotafræðing og doktorsnema við læknadeild Háskóla Íslands, til að segja okkur meira frá erindi sínu og doktorsverkefni þar sem hún rannsakar komu kvenna á bráðamóttöku Landspítala vegna áverka í kjölfar heimilisofbeldis eða annars konar ofbeldis.
Út er komin Arnar saga Björnssonar fyrrverandi útibússtjóra Íslandsbanka á Húsavík, Ekki standa á öðrum fæti allt lífið. Það er dóttir Arnar, Kristín Erna sem skráði söguna. Það skiptast á skin og skúrir í lífi Arnar sem og í íslensku samfélagi. Hann er hestamaður, veiðimaður, eiginmaður, faðir, skrifstofumaður, bóndi í Gauksmýri og síðast útibússtjóri. Feðginin Örn og Kristín komu í þáttinn í dag.
Áki Guðni Karlsson leggur stund á doktorsnám í þjóðfræði og rannsakar auk þess ýmislegt áhugavert sem á fjörur hans rekur. Sem dæmi má nefna að hann hélt fyrir stuttu fyrirlestur sem hann kallaði Covid og dauðinn. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, hitti Áka og fékk hann til að segja frá þessum þjóðfræðivangaveltum.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON