Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði, skrifaði bókina Kynþáttafordómar í stuttu máli sem kom út á síðasta ári hjá Háskólaútgáfunni og Félagsvísindasviði Háskóla Íslands. Í bókinni fjallar höfundur um kynþáttafordóma í sögu og samtíð. Hún fjallar um alþjóðlegt samhengi kynþáttahyggju en sérstök áhersla er lögð á birtingarmynd kynþáttafordóma í íslensku samfélagi. Kristín Loftsdóttir kom í þáttinn í dag.
Málþingið Ofbeldi snertir allt samfélagið á vegum Félagsráðgjafafélags Íslands og Félagsráðgjafadeildar Háskóla Íslands fer fram í dag. Þar er fjallað um ofbeldi og afleiðingar ofbeldis út frá mörgum sjónarhornum í fjölbreyttum erindum. Við fengum Sigrúnu Ingvarsdóttur og Kristínu Þórðardóttur í viðtal í dag, en báðar eru þær félagsráðgjafar á Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis. Kristín hélt erindi á málþinginu undir yfirskriftinni Saman gegn ofbeldi og Sigrún hélt erindið Hverjir beita aldraða ofbeldi? Þær sögðu okkur frá málþinginu og erindu sínum í þættinum.
Á bænum Miðdalsgröf á Ströndum búa hjónin Steinunn Þorsteinsdóttir og Reynir Björnsson. Á bænum eru tvö íbúðarhús, eitt gamalt og annað nýrra sem hjónin búa í. Í gamla húsinu bjó móðir Reynis Guðfríður Guðjónsdóttir þar til hún lést í febrúar síðastliðnum, en það hús er nú nýtt sem sumarbústaður. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, fékk Reyni til að ganga með sér um húsið og rifja upp og segja frá þessu merkilega húsi þar sem til dæmis lækur rennur í gegnum sjálft húsið.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON