Í Víðsjá í dag verður meðal annars hugað að Ljóðadögum Óperudaga en þeir hefjast á morgun og standa fram á sunnudag. Þema hátíðarinnar er Ljóð fyrir loftslagið en í þættinum verður rætt við Guju Sandholt, listrænan stjórnanda Óperudaga, og einn gesta hátíðarinnar, bandaríska tónskáldið David Lang. Tvö verk eftir Lang, Passía fyrir litlu stúlkuna með eldspýturnar og Death speaks, verða flutt á tónleikum á föstudagskvöld. Einnig verður rætt við rithöfundinn Huldar Breiðfjörð sem sendi á dögunum frá sér bókina Sólarhringl - og suðið í okkur, bók sem fjallar meðal annars um skammdegi í Reykjavík og víðar, puttaferðalag um landið og Íslendingasögur. Og Gauti Kristmannsson, bókmenntagagnrýnandi þáttarins, fjallar í dag um ljóðabókina Leðurjakkaveður eftir Fríðu Ísberg.
Umsjón: Guðni Tómasson og Eiríkur Guðmundsson.