Í dag er alþjóðlegur dagur leiðsöguhunda. Leiðsöguhundar eru gríðarlega öflugt hjálpartæki fyrir blint og alvarlega sjónskert fólk og veita þeir notendum mikið frelsi og aukið öryggi. Blindrafélagið beitir sér fyrir því að tryggja félagsmönnum sínum aðgang að þjálfuðum leiðsöguhundum og við fengum í spjall til okkar Þorkel Steindal, formann leiðsöguhundadeildar Blindrafélagsins og starfsmann þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu. Með honum var leiðsöguhundurinn hans Gaur. Þorkell sagði okkur frá þjónustu leiðsöguhunda, sinni reynslu með sínum hundi og þessum alþjóðlega degi leiðsöguhunda í þættinum.
Á bak við tjöldin er nýr íslenskur söngleikur sem frumsýndur var fyrir nokkrum dögum á vegum Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurlands. Fjórar ungar konur, allar nemendur við skólann, ákváðu að gera allt sjálfar, semja leikritið, semja tónlistina, smíða leikmyndina og svo leikstýra þessu öllu. Við hittum höfundana, þær Svölu Nordal, Helgu Melsted, Hönnu Töru Björnsdóttur og Sigríði Fjólu Þórarinsdóttur í miðbæ Selfoss í gær.
Að lokum fengum við í dag póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni. Í póstkorti dagsins segir Magnús frá ferðalögum sínum, sem hafa verið nokkur á undanförnum vikum. Hann segir líka frá bók sem hann hefur verið að lesa eftir þýska rithöfundinn Ferdinand Von Schirach og í lokin nokkur orð um stríðið austur í Úkraínu.
umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson