Það er dýrt að búa á Íslandi, það vitum við öll. En er það of dýrt? Leigjendur segja markaðinn snargalinn, leigan hækkar bara og hækkar og endar ná varla saman. Húsnæðisöryggi þeirra er ótryggt með tilheyrandi áhrifum á líf þeirra og líðan og þetta gangi ekki lengur. Leigusalar segja aftur á móti að leiguverð sé of lágt, framboð hafi ekki haldið í við eftirspurn og það sé jafnvel tilefni til að hækka leigu enn frekar. Svo einfalt er það.
En nú eru uppi hugmyndir um að leyfa markaðnum ekki að ráða, heldur grípa inn í. Samtök leigjenda og formaður VR hafa talað fyrir leiguþaki eða leigubremsu til að stemma stigu við vandanum og Flokkur fólksins hefur lagt fram frumvarp þess efnis. En hvað er leiguþak? Er það dæmt til að mistakast eins og sumir vilja meina eða eina leiðin til að leysa úr vanda þeirra 45.000 heimila sem eru á leigumarkaði?
Snorri Rafn Hallsson fjallar um stöðuna á leigumarkaði og hugmyndir um leiguþak í þætti dagsins.