Við höfum verið að fjalla um áföll í þættinum undanfarnar vikur og í dag fengum við Jokku G. Birnudóttur, en hún flytur á morgun þann fyrsta í röð rafrænna hádegisfyrirlestra í 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi á vegum Háskólans á Akureyri. Í fyrirlestrinum lýsir Jokka reynslu sinni af úrvinnslu úr áföllum eftir ofbeldi og hún sagði okkur einmitt frá því og svo sagði hún okkur frá því hvað lífssigrari er.
Síðan Family living - The true story - ICELAND á facebook er vettvangur til að deila myndum eða myndböndum af eðlilegu heimilisdrasli. Síðan á rætur sínar að rekja til sænskrar facebooksíðu þar sem fólk fór að deila myndum frá heimilum sínum sem voru ólíkar þeim sem sjást á samfélagsmiðlum, í glanstímaritum og fjölmiðlum, sem sýna oftast einsleita og óraunsæja mynd af hinu fullkomna heimili. Rúmlega 85 þúsund facebooknotendur hafa skráð sig í sænska hópinn og um 13 þúsund hafa skráð sig á íslensku síðuna. Elín Oddný Sigurðardóttir, varaborgarfulltrúi og stofnandi íslensku síðunnar kom í þáttinn í dag.
Við fengum póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni í dag. Í póstkorti dagsins talaði Magnús um viðbrigðin við það að flytja frá erlendri borg í íslenskan fiskimannabæ, en þau eru samt ekki eins mikill og stærðarmunurinn segir til um því fólk er alls staðar eins með kostum sínum og göllum. Það var svo sagt frá mannlífi í Vestmannaeyjum sem og samhengi pólitíkur og kórónuveirusmits í Þýskalandi. Í lokin er aðeins fjallað um heimsmeistaramótið í fótbolta sem verður háð í eyðimerkurríkinu Katar á næsta ári.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON