List án Landamæra verður sett í Ráðhúsinu í næstu viku og stendur til 7. nóvember. Hátíðin er vegleg að vanda en hún er að öllu leyti staðsett í miðborginni í ár. Hátíðin nánast leggur undir sig Ráðhúsið, Iðnó, Tjarnarbíó, Borgarbókasafnið í Grófinni. List án landamæra er listahátíð sem leggur áherslu á list fatlaðs fólks og tilgangurinn er að auka menningarlegt jafnrétti og fjölbreytni með því að skapa faglegan vettvang og tækifæri fyrir fatlaða listamenn. Listamaður hátíðarinnar árið 2021 er Steinar Svan Birgisson og hann kom í þáttinn í dag.
Úní Arndísar yogakennari, seiðkona og perlumóðir býður uppá heilandi hugleiðslu og slökun fyrir perlumæður næsta laugardag en perlumæður eru mæður án barna. Úni segir: Perlumóðir er móðir lífsins, hún er móðir fegurðar og ljóma. Kona sem gefur af sér, skapar og breytir heiminum. Hún er móðir margra perlna, en hún getur ekki eignast börn, eða velur það að eignast ekki börn. Úní sagði okkur meira frá perlumæðrum í þættinum í dag.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var kvikmyndaleikstjórinn Ásdís Thoroddsen, en á fimmtudaginn fer heimildarmyndin Milli fjalls og fjöru í almenna sýningu í Bíó paradís. Við fengum Ásdísi til að segja okkur frá því hvað hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina, Dostójevskí, kínversk ljóð frá Tang tímabilinu og fleira.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON