Á dögunum kom út mikið rit sem nefnist Saga listasafna á Íslandi, greinasafn, eftir 26 höfunda. Í bókinni er fjallað um öll helstu listasöfn þjóðarinnar, markmiðið er að varpa ljósi á tilurð, vöxt og starfsemi listasafna hér á landi, greinarnar eiga það sameiginlegt að gera tilraun til að svara spurningunni: Hvernig hafa söfnin sem sérhæfa sig í að safna list, varðveita hana og gera hana aðgengilegri, þróast hér á landi? Rætt verður við ritstjóra bókarinnar, Sigurjón Baldur Hafsteinsson, í Víðsjá í dag.
Rætt verður við Berglyndi Jónu Hlynsdóttur myndlistarkonu sem hefur komið sér fyrir á þaki Tollhússins við Tryggvagötu með verk sitt Biðin er löng - Tollhúsið 1. bindi sem er hluti af sýningarröðinni Haustlaukar og Listasafn Reykjavíkur stendur fyrir. Í verkinu tekur Tollhúsið sjálft til máls og veltir fyrir sér framtíð sem ekki varð og hvaða væntingar almenningur hefur borið til svæðisins í gegnum tíðina.
Kristín Svava Tómasdóttir segir hlustendum frá bók vikunnar sem að þessu sinni er ljóðasafnið Meðgönguljóð - úrval sem tekur saman efni úr á fjórða tug ljóðabóka sem upprennandi ljóðskáld sendu frá sér á árabilinu 2012-2018 undir merkjum Meðgönguljóða, en serían var á þessum árum þáttur í mikilli vakningu í íslenskri ljóðlist.
Nýr listi breska blaðsins The Guardian yfir bestu myndlistarverk 21. aldar kemur einnig við sögu.
Umsjón: Guðni Tómasson og Eiríkur Guðmundsson