Sýningin Sjáið mig er þátttökusýning sem fjallar um loddaralíðan eða imposter syndrome og það er leikhópurinn Slembilukka sem stendur að henni. Slembilukka samanstendur af þeim Bryndísi Ósk Ingvarsdóttur, Laufey Haraldsdóttur og Eygló Höskuldsdóttur og er sýningin innblásin af þeirra eigin loddaralíðan í sviðslistaheiminum. Þær Bryndís og Laufey komu í þáttinn í dag og ræddu við okkur um sýninguna og loddaralíðan.
Félagsráðgjafafélag Íslands stóð fyrir yfir 30 málstofum og erindum s.l. föstudag um málefni sem tengjast vinnu og rannsóknum félagsráðgjafa. Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, var ein þeirra sem fluttu þar erindi, hennar erindi bar yfirskriftina Mannréttindi jaðarhópa - valdefling þeirra sem standa höllum fæti. Þar talaði hún um hlutverk félagsráðgjafa til dæmis með því að taka þátt í stefnumótun stjórnvalda, mótmæla óréttlátri stefnu og framkvæmd hennar er varðar jaðarsetta hópa samfélagsins og aðra minnihlutahópa sem þarfnast opinbers stuðnings til þess að njóta félagslegs réttlætis og mannréttinda. Vilborg kom í þáttinn í dag og sagði okkur meira frá þessu.
Á Klúku í Miðdal við Steingrímsfjörð búa hjónin Unnsteinn Árnason og Íris Guðbjartsdóttir. Kristín Einarsdóttir, okkar kona á Ströndum, heimsótti þau hjón í upphafi sauðburðar og ræddi við Unnstein í fjárhúsinu um störf bóndans og sérstaklega um vinnu Unnsteins við að græða upp landið.
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR