Magnús Kjartansson tónlistarmaður eða Maggi Kjartans, var föstudagsgestur Mannlega þáttarins í dag, en hann varð sjötugur 6.júlí síðastliðinn. Magnús ólst upp í Keflavík og stundaði tónlistarnám í Tónlistarskóla Keflavíkur og Tónlistarskólanum í Reykjavík og frá árinu 1966 hefur Magnús verið tónlistarmaður að aðalstarfi. Hann hefur leikið með mörgum hljómsveitum, aðallega á hljómborð, píanó og trompet, en einnig verið útsetjari og upptökustjóri og samið eigin tónlist. Hann hefur starfað mikið að málefnum FTT og STEF og verið formaður í báðum félögunum. Hljómsveitirnar sem hann hefur leikið með eru fjölmargar, Óðmenn, Júdas, Trúbrot, Blues Company, Mannakorn, Brunaliðið, Brimkló, Hauka, HLH flokkinn, Hljómsveit Björgvins Halldórssonar, Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar, Sléttuúlfana og fjölda annarra hljómsveita, sem Magnús hefur starfað með í styttri eða lengri tíma. Og lögin hans löngu orðnar perlur í íslenskri dægurtónlist, til að nefna örfá: Skólaball með Brimkló, Einskonar ást með Brunaliðinu (höfundur lags), Lítill drengur með Vilhjálmi Vilhjálmssyni (höfundur lags) og Svefnljóð með Vilhjálmi Vilhjálmssyni (höfundur lags).
Og í matarspjalli dagsins ræddi Sigurlaug Margrét við Pál Ásgeir Pálsson útivistargarp um matinn á fjöllum og matinn í bakpokanum. Hvað er hægt að elda á einni gashellu? Og svo sagði hann frá hjónabandssæla, án sykurs og rabbarbarasultu sem gerði markaðinn alveg vitlausan, eins og hann orðaði það.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON