Meðvirkni er alvarlegt vandamál sem snertir flestalla strengi lífs þeirra sem við hana etja. Meðal þeirra tilfinninga, upplifunar og erfiðleika sem meðvirkni getur skapað eru skömm, öryggisleysi, undanlátsemi, framtaksleysi, þunglyndi, sektarkennd, samskiptaörðugleikar, vandi í samböndum, ótti við álit annarra, stjórnsemi, fíknir, tómleiki og lágt sjálfsmat svo eitthvað sé nefnt. Þó svo að margir telji sig vita hverjar birtingamyndir meðvirkni geta verið þá vita fáir hver raunveruleg orsök hennar er og hvað hún hefur mikil áhrif á öll okkar sambönd, samskipti og líðan. Við ræddum við Valdimar Þór Svavarsson en hann hefur sérmenntað sig í áfalla- og uppeldisfræðum Piu Mellody sem fjalla um meðvirkni og áfallavinnu.
Helena Jónsdóttir danshöfundur og kvikmyndagerða kona, hefði, ef ekkert væri Covid, staðið að hreyfimyndahátíð sem kallast Physical Cinema sem átti að vera hluti af Stockkfish kvikmyndahátíðinni. En þar sem ekkert slíkt má vera í gangi hefur Stockfish verið frestað. Helena ákvað hins vegar að setja upp öll þau verk sem hægt er utandyra og þau munu standa til 17.apríl. Við heyrðum í Helenu í þættinum og fengum að vita hvar verkin eru staðsett, en það er hægt að sjá á www.physicalcinemafest.com.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Elfa Ýr Gylfadóttir, hún er með BA í bókmenntafræði, er fjölmiðlafræðingur og framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar. Við fengum að vita hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft áhrif á hana í gegnum tíðina.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON