Dr. Janus Guðlaugsson kom í þáttinn í dag og kynnti fyrir okkur niðurstöður nýrra kannana sem hann hefur gert meðal eldri borgara nú á tímum Covid sem sýna hversu mikilvægar styrktaræfingar og hreyfing eru og ef ekki er sérstaklega er passað upp á það á svona tímum, þá getur aðgerðarleysi leikið eldri borgara grátt. Janus sagði frá þessum mælingum og mikilvægi styrktarþjálfunar og forvarna í þættinum.
Í dag opnar sýning í Kringlunni þar sem ólíkar listgreinar skapa eina nýstárlega heild. Um er að ræða tónlist, málverk, danslist og kvikmyndagerð. Á veggjum sýningarinnar verða 12 málverk og við hlið þeirra skjáir með listrænum myndböndum sem innihalda 12 lög. Sýningargestir geta með heyrnartólum á staðnum hlustað á lögin sem málverkin eru um, séð þau verða til í myndbandi og horft samtímis á þau fullsköpuð á sýningarveggnum. Bjarni Hafþór Helgason ssagði nánar frá þessu í þættinum en þessi viðburður er haldin til styrktar Parkisonssamtökunum.
Tellington T Touch er tækni sem snýr að þjálfun dýra og er notuð í yfir 40 löndum víða um heim. Markmiðið með henni er að auka vellíðan hesta, hunda, katta og raunar allra dýra sem hafa taugakerfi, þar á meðal manna. Nú hefur þessi aðferðafræði skotið rótum í Flóanum og við fengum að heyra í þættinum þegar Margrét Blöndal að fór að heimsækja Maríu Weiss fiðlukennara og Tellington T Touch þjálfara og fræddist um hugmyndafræðina sem liggur að baki.
UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR