Öldrunarráð Íslands verður með málþing um millistigið á fimmtudaginn í Laugarásbíói. Millistigið er tímabilið sem fólk vill öryggi, félagsskap og aðgengilegt húsnæði. Þegar það hefur jafnvel ekki þörf fyrir þjónustu en hefur þörfina fyrir öryggi og samveru. Þegar það vill geta fengið þjónustu heim ef eða þegar það þarf á því að halda, áður en þau hafa þörf fyrir mikla þjónustu og ferð á hjúkrunarheimili. Jórunn Ósk Frímannsdóttir Jensen, formaður Öldrunarráðs Íslands kom i þáttinn og sagði okkur frá.
Páll Imsland jarðfræðingur kom til okkar í dag. Hann segist hafa haft liti og ljósmyndun á heilanum alla tíð. Hann hefur verið sérstakur áhugamaður um íslensk húsdýr og liti þeirra og hefur ljósmyndað þau í áratugi og safnað upplýsingum um liti þeirra, litaafbrigði og litmynstur. Hann hefur haldið fyrirlestra og sýningar og í dag ætlar kom hann í Mannlega þáttinn og fræddi okkur um mismunandi liti mismunandi húsdýra á Íslandi.
Guðrún Ólafsdóttir kom svo til okkar og sagði okkur frá reynslu sinni af því að ferðast ein um heiminn. Hún kennir einmitt það á námskeiði hjá Endurmenntun Háskóla Íslands, en hún segir að það sé stórkostlegur ferðamáti sem feli í sér mikið frelsi en á sama tíma nokkrar áskoranir. Guðrún hefur búið víða erlendis og ferðast heimshornanna á milli og hún sagði okkur frá kosti og göllum þess að ferðast ein í þættinum í dag.
Tónlist í þættinum í dag
Í blíðu og stríðu / Heiða Ólafs (Jóhann Helgason)
Piensa En Mi / Linda Ronstadt (Augustin Lara)
Vegbúi / KK (Kristján Kristjánsson)
UMSJÓN: GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR