Náttúruvísindamenn hafa uppgötvað og skráð meira en þúsund tegundir lúsmýs. Þetta eru agnarsmá kvikindi, en ást okkar til þeirra er þó ennþá minni. Samt gerir mikill meirihluti þessarra þúsund tegunda manneskjum ekki neitt. En þær fáu sem gera það, bæta upp fyrir skaðleysi hinna. Við vitum ekki hvenær þau komu fyrst til landsins, en árið 2015, þegar vísindamenn voru búnir að skrá hér sex tegundir, allar meinlausar, gerði sú sjöunda vart við sig. Og það er eiginlega ekki hægt að flýja hana. Og það þýðir lítið að eltast við jarðar- eða sumarbústaðakaup á þeim svæðum þar sem þessi litla vera hefur enn ekki drepið niður fótum, því hún er að dreifa sér um allt landið og hún er að gera það hratt. Fasteignasali segir að við verðum bara að breyta hegðun okkar og lifa með henni. Sunna Valgerðardóttir fjallar um minnsta og mest pirrandi Íslendinginn, lúsmýið, í þætti dagsins.