Rás 1 verður á andlegu nótunum í janúar. Mannlegi þátturinn mun huga að andlegu heilsunni með ýmiskonar fróðleiksmolum og viðtölum við sérfræðinga og ráðgjafa. Og svo er það Morgunleikfimin sem fer í frí og við fáum í staðinn leidda hugleiðslu með Thelmu Björk Jónsdóttur jógakennara alla virka morgna klukkan 9.45. Thelma Björk var einmitt föstudagsgestur Mannlega þáttarins í dag, hún er fatahönnuður, móðir og jógakennari. Hún hefur verið að kenna jóga og hugleiðslu síðan hún útskrifaðist sem jógakennari árið 2014. Við fengum að kynnast henni í þættinum í dag og fengum að vita hvernig morgunhugleiðslan verður í útvarpinu næsta mánuðinn.
Svo var það matarspjallið, sem er fastur liður hjá okkur á föstudögum. Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum að sífellt fleiri prófa ketó mataræðið, gerast vegan, grænkerar og hvað þetta allt saman heitir. Þorbjörg Hafsteinsdóttir var að gefa út bókina Ketóflex 3-3-1 mataræðið. Við fengum Þorbjörgu til að segja okkur betur frá því hvað það er.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON