Fyrsti tölvuleikur íslenska tölvuleikjafyrirtækisins Myrkur Games sem nefnist Echoes of the End eða Bergmál endalokanna í lauslegri þýðingu er að koma út í sumar eftir átta ára þróunarvinnu. Leikurinn er sá fyrsti sem fyrirtækið framleiðir og sameinar spennandi bardagakerfi, fjölbreyttar þrautir, og hjartnæma sögu í fantasíuheimi sem sækir innblástur í íslenskt landslag. Aldís Amah Hamilton leikkona leikur aðalhetju leiksins og sagði frá honum ásamt Magnúsi Guðrúnarsyni, handritshöfundi, sem býr til heiminn.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur kom í Veðurspjallið og talaði um hvernig veðrið getur haft áhrif á tómstundir að sumri, golfið, hlaupa-og hjólreiðafólk og íþróttamót barna og ungmenna. Hann ræddi líka um hvort frostnætur að undanförnu hafi áhrif á gróðurinn og veðurútlit næstu daga þar á meðal 17.júní sem er á næsta leiti.
Og lesandi vikunnar var María Elísabet Bragadóttir rithöfundur sem deildi með okkur bókunum sem hún hefur verið að lesa og þeim sem hafa haft mest áhrif á hana. Hún sagði einnig frá því hvað er framundan hjá henni og hvernig viðtökurnar hafa verið við smásagnasafni hennar Herbergi í öðrum heimi sem er að koma fyrir augu lesenda erlendis auk þess sem smásagnasafn hennar Sápufuglinn var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Evrópusambandsins í fyrra og hlaut þar sérstaka viðurkenningu.
Tónlist í þættinum í dag:
Everybody´s Talking / Harry Nilsson
Fragile / Sting
Don´t stop / Fleetwood Mac
UMSJÓN HELGA ARNARDÓTTIR OG FANNEY BIRNA JÓNSDÓTTIR