Við fengum til okkar Bryndísi Jónu Jónsdóttur aðjúnkt á Menntavísindasviði HÍ, doktorsnemi og núvitundarkennari. Hún talaði um núvitund og hvernig það getur hjálpað okkur til dæmis þegar kemur að uppeldi barnanna okkar. Sem sagt bæði með því að ástunda núvitund sjálf og með því að styðja við núvitund barnanna.
Krakkar í 2.-4. bekk á Austurlandi eiga von á skemmtilegri heimsókn því barnaóperusýningin Fuglabjargið fer um Austurland. Það er loks komið að þessu ferðalagi eftir nokkrar frestanir útaf Covid-19. Verkið fjallar um Skrúð, litla eyju við minni Fáskrúðsfjarðar, Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir tónskáld verksins, var á línunni í þættinum í dag, en hún er upprunalega frá Fellabæ á Egilsstöðum.
Lesandi vikunnar í þetta sinn var Anna Kristín Hannesdóttir, bókasafnsfræðingur á bókasafni Menntavísindasviðs HÍ. Við fengum að heyra hvaða bækur hún hefur verið að lesa undanfarið og hvaða bækur og höfundar hafa haft mest áhrif á hana í gegnum tíðina. Auk þess flutti hún tvö ljóð sem hún sendi inn í ljóðakeppni Húsfreyjunnar 2018, en annað þeirra sigraði keppnina.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON