Í Víðsjá í dag verður meðal annars rætt við Starkað Sigurðarson ritstjóra nýs tímarits sem heitir Myndlist á Íslandi. Í síðustu viku kom óvænt út hljómplatan Carnage með ástralska tónlistarmanninum Nick Cave og samstarfsmanni hans til margra ára, Warren Ellis. Platan hefur fengið góða dóma, sumir gagnrýnendur jafnvel á þeirri skoðun að hér sé á ferðinni besta plata Cave til margra ára. Hlustendur heyra tóndæmi í Víðsjá í dag. Einnig verður haldið áfram að skoða kvöldsögu Rásar 1, Grettis sögu, út frá hinum ýmsu sjónarhornum. Örnólfur Thorsson heimsækir þáttinn og ræðir í dag meðal annars um aðferðir og vinnubrögð höfundarins eða höfundanna sem færðu söguna til bókar. Og Gréta Sigríður Einarsdóttir fjallar í pistli dagsins um hljóðbækur og streymisvæðingu menningar.