Föstudagsgestur Mannlega þáttarins í þetta sinn var Óðinn Jónsson. Hann starfaði auðvitað lengi hér á RÚV sem frétta- og dagskrárgerðarmaður og var fréttastjóri. Hann var fréttamaður á Norðurlöndum með aðsetur í Kaupmannahöfn, síðan þingfréttamaður. Hann lærði sagnfræði, íslensku og opinbera stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Árið 2019 söðlaði Óðinn um og tók til starfa sem ráðgjafi hjá ráðgjafa- og almennatengslastofunni Aton JL. Það var um nóg að tala við hann í dag, fréttamennskuna, fjölmiðlastarfið, Bítlana og ferðalagið í gegnum lífið.
Í matarspjalli dagsins ákvað besti vinur bragðlaukanna, Sigurlaug Margrét Jónasdóttir, að heyra í Snorra Ásmundssyni, listamanni. Hann hefur verið að passa hús og ketti í sænskum skógi nálægt landamærum Svíþjóðar og Noregs. Hann hefur notað tímann og einveruna til þess að búa til list og svo hefur hann sett af stað matreiðsluþætti á netinu, þar sem hann hefur til dæmis gefið uppskriftina að ristuðu brauði með smjöri og sænskum kjötbollum. Við hringdum í Snorra í sænska skóginum í matarspjallinu í dag.
UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG SIGURLAUG MARGRÉT JÓNASDÓTTIR