Vísindafélag Íslands stendur fyrir málþingi á morgun í Þjóðminjasafninu um opinn aðgang að rannsóknarniðurstöðum. Opinn aðgangur (e. open access) er þekkt hugtak í umræðunni um rannsóknir og birtingar fræða- og vísindafólks og snýst um óheftan aðgang almennings, nemenda háskóla og fræða- og vísindafólks um allan heim að rannsóknarniðurstöðum sem unnar hafa verið fyrir almannafé. Sara Stef. Hildardóttir, frummælandi og forstöðukona bókasafns og upplýsingaþjónustu Háskólans í Reykjavík og Eyjólfur Ingi Ásgeirsson, fundarstjóri og dósent við Tækni- og verkfræðideild HR komu í þáttinn.
Barnaþing verður haldið helgina 21 og 22.nóv í Hörpu. Þar munu 170 börn koma saman á þjóðfundi en börnin voru valin af handahófi af öllu landinu til að ræða það sem skiptir börn mestu máli. Þingið verður hápunktur afmælisárs barnasáttmálans en í ár eru 30 ár liðin frá því hann var samþykktur af Sameinuðu þjóðunum. Verkefnið tilheyrir umboðsmanni barna, Salvöru Nordal en hún kom í þáttinn og sagði nánar frá.
Opinn fundur ofbeldisvarnarnefndar Reykjavíkurborgar, fjölmenningarráðs Reykjavíkurborgar, ASÍ, W.O.M.E.N., Kvenréttindafélagsins og Kvennaathvarfisins var haldinn í Veröld, húsi Vigdísar, á þriðjudag. Þar var fjallað um innflytjendakonur og ofbeldi frá ýmsum hliðum. Sabine Leskopf, borgarfulltrúi og formaður fjölmenningarráðs Reykjavíkurborgar kom í þáttinn og fræddi okkur um það sem þar kom fram.
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON